Nautalund (Rossini) borin fram með steiktum kartöflum, sveppum og madeirasósu

Uppskriftin er fyrir 4

 
 

Madeirasósa 

  • 3 stk hvítir laukar 

  • 6 hvítlauksgeirar

  • olía til steikingar  

  • ½ bréf timian 

  • 4 sellerístilkar 

  • 50 ml balsamik edik 

  • 50 ml maple sýróp

  • 200 ml madeira

  • 1 líter nautasoð 

  • 150 gr smjör 

  • ½ sítróna (bara safinn)

  • Fínt salt (má sleppa)

Skrælið og skerið laukinn og hvítlaukinn í grófa bita, hitið pott með olíu og brúnið laukinn þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið selleríi, timiani, maple sýrópi út í ásamt balsamiko edikinu.  Sjóðið niður um ca 2/3 og bætið svo madeiranu út í og sjóðið það svo niður um helming. Hellið nautasoðinu út í og sjóðið svo allt saman niður um helming eða þar til að sósan er farin að þykkna. Sigtið sósuna yfir í annan pott og sjóðið upp á henni og þykkið hana með sósujafnara ef hún er ekki nógu þykk. Þegar þetta er búið er sósan klár og geymist í kæli í 7- 10 daga. Þegar nota á sósuna er hún hituð upp og smjörinu hrært út í á meðan. Smakkið til með sítrónusafanum og smá fínu salti og meira madeira ef þurfa þykir.

Nautalund Rossini

  • 4 stk 200 gr nautalundasteikur 

  • 4 stk 50 gr andalifrasteikur 

  • 4 brauðsneiðar úr hvítu samlokubrauði 

  • 1 krukka niðursoðnar trufflur 

  • 100 gr smjör 

  • Ólífuolía til steikingar 

Hitið pönnu með ólífuolíu og steikið nautasteikurnar allan hringin þar til þær eru gylltar og fallegar. Setjið steikurnar í eldfast form og inn í 180°c heitan ofn í 9 min, eða þar til kjarnhitinn er kominn í 46 - 48 gráður. Takið steikurnar út úr ofninum setjið álpappír yfir þær og látið þær jafna sig í ca 15 min.

Steikt andalifur 

Hitið pönnu og setjið andalifrasteikurnar á pönnuna og steikið þær í ca 2 min á hvorri hlið. Kryddið með salti og pipar. Setjið 1 tsk af niðursoðnu trufflunum ofan á steikurnar og berið fram með nautalundinni.


Smjörsteikt brauð 

Skerið brauðið út í hring eða ferhyrning. Hitið pönnu með smjörinu og steikið brauðið á báðum hliðum þar til það er orðið gyllt.

Steiktar kartöflur og sveppir 

  • 700 gr soðnar kartöflur 

  • 1 box sveppir 

  • 1 msk fínt skorin graslaukur 

  • 1 msk smjör 

  • ólífuolía til steikingar

  • Sjávarsalt 

  • Svartur pipar 

Skerið kartöflurnar og sveppina í fernt og setjið á heita pönnu og steikið í ca 4 min. Bætið smjörinu út á pönnuna og steikið í 4 min í viðbót. Kryddið með salti og pipar og bætið 1 msk af fínt skornum graslauk út á pönnuna í lokinn. 

ERIII4262.jpg
Previous
Previous

Nautakinnar með tagliatelle pasta kirsuberjatómötum og reyktri paprikusósu

Next
Next

Steikt nautaribeye með hráskinku og ostakartöfluköku. Borin fram með súrsætum sveppum og rauðlauk